Kjarninn í starfsemi Samgöngustofu er öryggi í samgöngum. Íslenskt þjóðfélag er í stöðugri mótun og aðlögun er nauðsynleg til að framþróun verði. Markmiðin ættu alltaf að vera framfarir milli ára og að staða okkar sé hið minnsta jafngóð og þeirra þjóða sem fremstar standa. Þáttur í þeirri vegferð er að stuðla sem best að öryggi fólks á ferðinni, óháð samgöngumáta. Margt hefur áunnist en alltaf má gera betur og okkar að vera samferða á þeirri leið.
Samgöngustofa er stjórnsýslustofnun samgöngumála og tók til starfa 1. júlí 2013. Stofnunin starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og alþjóðaskuldbindingum sem gilda á hverjum tíma. Stofnunin hefur það hlutverk að stuðla að öruggum samgöngum að teknu tilliti til þess að þær séu sjálfbærar, greiðar og hagkvæmar og taka um leið mið af þörfum samfélagsins. Frá upphafi hefur mikið starf verið unnið við að samþætta og styrkja sameinaða stofnun. Til einföldunar hefur Samgöngustofa skilgreint fjögur meginverkefni sem ná jafnt til flugs, siglinga og umferðar á landi:
Heildarstefna Samgöngustofu fyrir tímabilið 2022 til 2024 er vegvísir til þeirrar framtíðar sem við viljum byggja á komandi árum. Framtíðarsýnin vísar til þess að Samgöngustofa ætlar að vera samferða á þessari leið, bæði ytri hagaðilum og starfsfólki í að gera gott samfélag enn betra og öruggara í okkar helstu samgöngumátum. Stefnan og stefnuáherslur eru settar fram byggt á áðurnefndum fjórum meginverkefnum stofnunarinnar. Þær varða leiðina sem fram undan er og við ætlum okkur að feta. Hlutverk alls starfsfólks er að taka höndum saman um að framtíðarsýnin verði að veruleika. Ég hvet okkur öll til að taka virkan þátt í þeim verkefnum sem fram undan eru og miða að því að að gera samfélagið og vinnustaðinn betri.
Stefnuvefurinn er mikilvægur vettvangur til að hafa stefnuna aðgengilega fyrir okkur sem störfum eftir henni og ekki síður fyrir ytri samstarfsaðila sem tengjast starfi stofnunarinnar. Stefnuvefurinn verður lifandi vefur þar sem reglulega verður skýrt frá þeim verkefnum sem eru í vinnslu og eiga að tryggja framgang við að raungera stefnuna. Fram undan eru spennandi tímar hjá Samgöngustofu, gangi okkur öllum vel við að tryggja öruggar samgöngur til framtíðar á Íslandi.
Við stuðlum að öruggum samgöngum og tökum tillit til þess að þær séu sjálfbærar, greiðar og hagkvæmar og taka mið af samfélags- og umhverfislegum þáttum.
Samgöngustofa starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og alþjóðaskuldbindingum sem gilda á hverjum tíma.
Fjögur meginverkefni ná jafnt til flugs, siglinga og umferðar á landi: Stjórnsýsla, þjónusta og upplýsingamiðlun, leyfisveitingar og eftirlit og innra starf.
Fjölmargir og ólíkir en eiga það sameiginlegt að hafa hagsmuni af starfi og ákvörðunum stofnunarinnar
Allir mikilvægir og tengjast Samgöngustofu í gegnum margskonar hlutverk: Samstarfsaðilar, leyfishafar, fulltrúar fagstétta, viðskiptavinir eða almennir borgarar.
Mismunandi kröfur til hagaðila kalla á sérsniðna nálgun með jafnræði að leiðarljósi.
Siðareglum þessum er ætlað að endurspegla þau viðmið sem starfsfólk Samgöngustofu er sammála um að viðhafa í störfum sínum.
Siðareglunum er einnig ætlað að endurspegla gildi stofnunarinnar sem eru jákvæðni, fagmennska, traust og virðing.
Siðareglur þessar eru sáttmáli okkar allra og við gætum þess fyrir okkar leyti að farið sé eftir þeim.
Þá gilda ætíð einnig almennar siðareglur starfsmanna ríkisins sem birtar eru á vef Stjórnarráðsins.
Við störfum í þágu almennings af fagmennsku og sinnum störfum okkar af ábyrgð og samkvæmt okkar bestu dómgreind.
Við sýnum fagmennsku og ábyrgð í starfi með því að leita upplýsinga, fylgja lögum, reglum, viðurkenndum starfsháttum, siðareglum og öðrum viðmiðum sem eiga við um störf okkar hverju sinni.
Við gætum þess að fjalla um mál viðskiptavina af nærgætni og trúnaði.
Við gætum þess að hagur viðskiptavina okkar, samstarfsfólks og annarra hagsmunaaðila sé tryggður.
Við gætum trúnaðar og þagmælsku um atriði sem við fáum vitneskju um í starfi samkvæmt ákvæðum laga, fyrirmælum stjórnenda eða eðli máls. Það á við hvort sem um er að ræða atriði sem varða aðila sem Samgöngustofa hefur samskipti við eða hefur eftirlit með, stofnunina sjálfa eða starfsfólk hennar.
Við rýrum ekki trúverðugleika Samgöngustofu með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi.
Við forðumst að viðhafa nokkuð í starfi eða utan þess sem er okkur til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á starf okkar eða vinnustaðinn.
Við komum fram við viðskiptavini og hvert annað af kurteisi og sanngirni.
Við sýnum umburðarlyndi og tökum tillit til ólíkra sjónarmiða.
Við ávinnum okkur virðingu með athöfnum okkar innan Samgöngustofu sem utan.
Við gagnrýnum með uppbyggilegum hætti og beinum ábendingum okkar til þeirra er málið varðar. Við erum hvetjandi við samstarfsfólk okkar og leggjum okkur fram við að bjóða fram aðstoð.
Við erum sammála um að hvers konar vanvirðing, einelti, áreitni, ofbeldi og önnur ótilhlýðileg háttsemi er aldrei liðin.
Við gætum þess að vina-, hagsmuna- og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf okkar hjá Samgöngustofu.
Við nýtum ekki stöðu okkar eða upplýsingar, fengnar í starfi, í eigin þágu eða annarra.
Við tökum ekki að okkur annað starf sem er ósamrýmanlegt starfi okkar hjá Samgöngustofu. Við tilkynnum til yfirmanns fyrirætlanir um störf utan Samgöngustofu.
Við beitum dómgreind okkar til þess að átta okkur á og koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra.
Við þiggjum ekki persónulegar verðmætar gjafir vegna starfs okkar.
Við forðumst að fjalla um eða afgreiða mál ef við höfum veruleg tengsl við viðskiptavin eða fyrirtæki eða fyrir hendi eru aðrar aðstæður sem eru til þess eru fallnar að draga megi óhlutdrægni okkar í efa.
Samgöngustofa stuðlar að öruggum samgöngum fyrir öflugt íslenskt samfélag. Samgönguöryggi á Íslandi er framúrskarandi og eins og best gerist hjá öðrum þjóðum.
Starf Samgöngustofu einkennist af fagmennsku vel þjálfaðs og hæfu starfsfólki með sérhæfða kunnáttu á hverju sviði til að tryggja öruggar samgöngur. Við tökum mið af þörfum hagaðila við skipulagningu á starfi. Samvinna og þjónusta við þá er áreiðanleg og lipur. Starfið tryggir framþróun sem tekur mið af síbreytilegum þörfum samfélagsins og umhverfislegum þáttum.