Sam
ferða

Framtíðarstefna Samgöngustofu
2025–2029
Jón Gunnar Jónsson
forstjóri Samgöngustofu

Ávarp forstjóra

Ísland á að vera meðal fremstu þjóða þegar kemur að öryggi í samgöngum. Þjóðfélag, sem sættir sig ekki við þann fórnarkostnað sem slys valda, byggir upp öryggismenningu þar sem öll taka þátt og eru samferða á leið til öruggara samfélags. Kyrrstaða er ekki valkostur. Okkar hlutverk er að virkja kraftinn sem þarf til að mæta sífellt nýjum áskorunum og ná árangri.

Stjórnvöld ákveða áherslur á hverjum tíma í starfsemi ríkis og stofnana. Samgöngustofa hefur unnið markvisst að því að endurskoða og uppfæra framtíðarstefnu sína sem hvetur til samstarfs á sameiginlegri vegferð til ársins 2029. Stefnan var unnin í nánu samstarfi stjórnenda og starfsfólks og byggir á fyrri stefnu sem náði til ársins 2024. Í vinnuferlinu var lögð áhersla á rýni á innra og ytra umhverfi, m.a. með greiningu skýrslna og fundum með stjórnendum. Haldnar voru vinnustofur og starfsmannafundir þar sem hugmyndir og tillögur voru kallaðar fram til að móta skýra framtíðarsýn. Drög að stefnunni voru lögð fram til skoðunar hjá öllu starfsfólki sem gaf þeim tækifæri til að leggja fram athugasemdir og hugmyndir áður en endanleg útgáfa var samþykkt.

Framtíðarstefna Samgöngustofu 2025-2029 er framhald fyrri stefnu en tekur þó tillit til breytinga í þjóðfélaginu og þess árangurs sem náðst hefur. Aukin áhersla er á væntingar samfélagsins og hagaðila til stofnunarinnar. Hafa verður í huga að fyrri stefna var mótuð á tímum heimsfaraldurs þegar brýnasta verkefnið var að tryggja starfsemi og þjónustu við fordæmalausar aðstæður.

Margt hefur áunnist og línur skýrðar í kjarnaverkefnum þar sem það átti við. Samgöngustofa hefur unnið markvisst að því að efla stafræna þjónustu með það að markmiði að auka skilvirkni, einfalda ferla og bæta aðgengi fyrir viðskiptavini. Í þessu skyni hefur stofnunin meðal annars innleitt níu stafræn skref í samstarfi við Stafrænt Ísland. Viðhorfskannanir meðal hagaðila og starfsfólks eru notaðar til umbótastarfs eftir því sem kostur er. Tekist hefur að halda rekstri stofnunarinnar í jafnvægi ásamt því að vinna að ýmsum umbótaverkefnum sem styðja stefnuna.

Hlutverk Samgöngustofu er að auka lífsgæði með öruggum samgöngum. Þrátt fyrir mikinn árangur er enn verk að vinna því slysin eru of mörg og fórnarkostnaður þeirra óásættanlegur. Ný stefna leggur áherslu á að saman náum við árangri.

Stefnuáherslur okkar snúa að:

  • Öryggi í samgöngum
  • Aðgengilegri þjónustu
  • Samfélagslegri ábyrgð
  • Öflugu innra starfi

Stefnan er vegvísir til þeirrar framtíðar sem við viljum byggja á komandi árum. Við viljum gera gott samfélag enn betra. Þetta er okkar leið að árangri í samstarfi við hagaðila. Í því felst einnig að markmið séu skilgreind, mælikvarðar settir og verkefni unnin til að tryggja að árangri sé náð. Fram undan eru spennandi tímar þar sem við ætlum að vera samferða að sameiginlegum markmiðum og árangri.

Hlutverk

Hlutverk Samgöngustofu er að auka lífsgæði með öruggum samgöngum

Öruggar samgöngur eru lykilþáttur í velsæld þjóðar og þær þurfa einnig að vera sjálfbærar, greiðar, hagkvæmar og taka mið af þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Þjóðfélag, sem sættir sig ekki við þann fórnarkostnað sem slys valda, byggir upp öryggismenningu þar sem öll taka þátt og þekkja hvað þarf til. Ísland á að vera í fremstu röð í þessum efnum.

Hagaðilar

Þeir eru fjölmargir og ólíkir en eiga það sameiginlegt að eiga hagsmuna að gæta í starfi og ákvörðunum stofnunarinnar.

Allir eru þeir mikilvægir og tengjast Samgöngustofu í gegnum margs konar hlutverk: Samstarfsaðilar, leyfishafar, fulltrúar fagstétta, viðskiptavinir eða almennir borgarar.

Mismunandi kröfur til hagaðila kalla á sérsniðna nálgun með jafnræði að leiðarljósi.

Gildin okkar

Jákvæðni

Við nálgumst verkefnin með jákvæðu hugarfari, sýnum virðingu og tökum þátt í samskiptum sem byggja upp góðan starfsanda gagnvart samstarfsfólki og viðskiptavinum.

Fagmennska

Við ráðum og höldum í hæft starfsfólk og vinnum markvisst að því að efla þekkingu þeirra. Vinnubrögð okkar einkennast af aga og vandaðri stjórnsýslu.

Traust

Við byggjum upp traust með heiðarlegum, faglegum og gegnsæjum vinnubrögðum. Við tökum vel á móti öllum og tryggjum að hvert og eitt fái jafna og sanngjarna þjónustu.

Virðing

Við virðum hugmyndir og skoðanir annarra og tökum öllum af þeirri virðingu sem við viljum sjálf fá. Með jákvæðni, fagmennsku og trausti sköpum við umhverfi sem eflir virðingu í samskiptum.

Framtíðarsýn

Það þarf samstillt átak allra sem eru á ferðinni til að gera íslenskar samgöngur öruggar, umhverfisvænar og hagkvæmar.

Saman náum við árangri

Hvort sem við ferðumst á lofti, láði eða legi þá eigum við samleið í því að vinna að metnaðarfullum markmiðum.

Við erum samferða

Stefnuáherslur og markmið

Öryggi í samgöngum

Öruggar samgöngur eru lykilþáttur í velsæld þjóðar og þær þurfa einnig að vera sjálfbærar, greiðar, hagkvæmar og taka mið af þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Þjóðfélag, sem sættir sig ekki við þann fórnarkostnað sem slys valda, byggir upp öryggis­menningu þar sem öll taka þátt og þekkja hvað þarf til. Ísland á að vera í fremstu röð í þessum efnum.

Samgöngustofa stuðlar að öryggi í öllum samgöngugreinum með því að annast stjórnsýslu samgöngumála í umboði stjórnvalda. Forsendan er löggjöf sem setur viðmið um örugga hegðun, tækni og innviði. Leyfisveitingar og eftirlit með frammistöðu, ásamt tölulegum greiningum, fræðslu og forvörnum, leggja grunninn að starfseminni. Með skýrum kröfum, fagmennsku og skilvirkni næst árangur sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Samgöngustofa á að vera mótandi afl og fyrirmynd í öryggismálum og sýna ábyrgð og heilindi í starfsemi sinni. Skýr stefna og metnaður starfsfólks til að ná settu marki eru undirstaða árangurs.

Markmið

Öflug fræðsla og forvarnir

Áætlanir um forvarnir og fræðslu eru markhópamiðaðar og stöðugt endurmetnar út frá árangri í samgönguöryggi hverju sinni.

Þekking er virkjuð í samstarfi við tilgreinda hagaðila til að stuðla að jákvæðri þróun samgangna.

Skilvirkar leyfisveitingar

Verklagsreglur um veitingu starfsleyfa eru fyrir hendi og upplýsingar til þeirra sem sækja um leyfi eru skýrar og aðgengilegar.

Leyfisveitingar Samgöngustofu eru skilvirkar og faglegar og byggja á gildandi kröfum.

Áhættumiðað eftirlit

Eftirlit fyrir hvern samgöngumáta tekur mið af viðeigandi öryggis­áætlunum og er framkvæmt með faglegum hætti til að stuðla að bættri frammistöðu.

Eftirlitsáætlanir eru tímasettar og byggja á atvikaskráningu og áhættugreiningum sem endurspegla frammistöðu leyfishafa.

Aðgengileg þjónusta

Skýr stefnumörkun og vel skipulögð samskipti stuðla að markvissri upplýsingagjöf, gagnkvæmu trausti og virðingu. Verkefni Samgöngustofu eru í sífelldri þróun og í takti við þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Reglulegt samtal við hagaðila er mikilvægt til að hægt sé að vinna að umbótum á öllum sviðum, tryggja öflugt upplýsingaflæði og fyrsta flokks þjónustu, m.a. með stafrænum lausnum.

Samgöngustofa sinnir eftirliti í mörgum veigamiklum málaflokkum stofnunarinnar. Starfsemi Samgöngustofu miðar að því að vera samferða samfélaginu, gera gagn og greiða götu fólks þar sem lögð er áhersla á góða upplifun notenda af persónulegri og stafrænni þjónustu. Þjónusta Samgöngustofu er nútímaleg og leitast er við að uppfylla þarfir með hagnýtum og skilvirkum leiðum. Með innleiðingu nýrra stafrænna lausna hefur starfsemin verið færð yfir á snjallari vettvang, þar sem tæknin er notuð til að bæta aðgengi, hraða afgreiðslu og einfalda ferla.

Markmið

Markvisst upplýsingaflæði

Hagaðilar eru vel skilgreindir eftir málaflokkum og samskipti við þá eru skipulögð og tímasett til að tryggja öflugt upplýsingaflæði.

Skilvirkt ábendingakerfi er aðgengilegt fyrir ytri hagaðila og unnið er úr ábendingum til að bæta starfsemi og fylgja málum eftir.

Framsækin þjónusta

Þjónusta Samgöngustofu er nútímaleg og framsækin.

Upplifun hagaðila er könnuð reglulega og niðurstöður nýttar til stöðugra umbóta á starfseminni.

Stafrænar lausnir

Ávallt er litið á stafrænar eða rafrænar lausnir sem fyrsta valkost í samskiptum og þjónustu.

Heildaráætlun er til um stafræna vegferð og tekið er mið af nýjustu tækni við hönnun verkferla og þjónustuleiða.

Heildarsýn og stýring eru á gagnasöfnum, aðgangur hagaðila að gögnum er greiður, sjálfvirkur og notendavænn.

Samfélagsleg ábyrgð

Kjarninn í starfsemi Samgöngustofu er öryggi í samgöngum þar sem samfélagsleg ábyrgð og skilvirk stjórnsýsla skipta miklu í framþróun íslensks þjóðfélags. Stofnunin horfir til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem fjalla um helstu áskoranirnar sem heimurinn stendur frammi fyrir. Samgöngustofa leggur áherslu á langtímahugsun í stefnumótun sinni og styður uppbyggingu samgöngukerfa og innviða sem stuðla að framtíðarlausnum fyrir aukinn jöfnuð og hagkvæmni.

Sjálfbærar samgöngur eru afgerandi þáttur í því að draga úr loftslagsáhrifum og bæta lífsgæði á Íslandi. Uppbygging umhverfisvænna samgangna skiptir því sköpum og með öflugu innlendu og alþjóðlegu samstarfi má stuðla að nýsköpun og þekkingarmiðlun sem nauðsynleg er í þessu samhengi. Samræmt regluverk og skilvirk stjórnsýsla geta einnig stutt innleiðingu lausna og einfaldari ferla svo markmið um öryggi og sjálfbærni í samgöngum geti náðst.

Markmið

Skilvirk stjórnsýsla

Samgöngustofa tryggir hagaðilum og almenningi réttláta og sanngjarna málsmeðferð í samræmi við vandaða stjórnsýslu.

Ferli við undirbúning og innleiðingu á nýjum eða breyttum kröfum er vel skilgreint og regluverk einfaldað með öryggi að leiðarljósi.

Sjálfbærni

Stofnunin tekur tillit til samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa í ákvarðanatöku og framkvæmd verkefna með það að leiðarljósi að stuðla að jákvæðum og sjálfbærum áhrifum á samfélagið til lengri tíma.

Innlent og alþjóðlegt samstarf

Samgöngustofa hefur frumkvæði að samstarfi við innlendar stofnanir og lítur á það sem mikilvægan þátt í að styrkja stjórnkerfið í heild.

Stofnunin tekur virkan þátt í umræðu og mótun alþjóðlegs regluverks og leitað er til Íslands eftir þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.

Öflugt innra starf

Árangur Samgöngustofu byggir á öflugu starfsfólki á nútímalegum vinnustað sem hefur fagmennsku og metnað að leiðarljósi. Samgöngustofa er þekkt fyrir hvetjandi starfsumhverfi, góðan starfsanda og skipulagða fræðslu og þjálfun. Jákvæð samskipti, samvinna og virðing fyrir fjölbreytni eru í hávegum höfð.

Samgöngustofa er rekin með fjárhagslegri festu og í anda samfélagslegs réttlætis. Vandað er til allrar áætlanagerðar og eftirfylgni stjórnenda stuðlar að sjálfbærum rekstri. Markmið gjaldtöku er að ríkisframlag beri kostnað vegna þeirra verkefna sem stjórnvöld ákveða að séu undanþegin gjöldum.

Menning Samgöngustofu miðar að því að stofnunin þróist í takt við breyttar samfélagsþarfir og tækniframfarir. Hún er studd af vel útfærðum vinnukerfum, skýrum daglegum starfsháttum, ferlum og teymisvinnu. Með því að samþætta stefnu, stöðugar umbætur og skipulögð vinnubrögð er stofnunin betur í stakk búin til að takast á við áskoranir og tryggja árangur og faglega starfsemi til framtíðar.

Markmið

Hvetjandi starfsumhverfi

Samgöngustofa er eftirsóttur vinnustaður, þekktur fyrir framsækið starfsumhverfi, jákvætt og öflugt innra starf.

Áhersla er lögð á rétta mönnun, þar sem hæfni og hæfi starfsfólks eru tryggð.

Ábyrgð og sanngirni

Rekstur stofnunarinnar einkennist af vandaðri áætlanagerð og ábyrgri fjármála­stjórnun með reglulegri eftirfylgni stjórnenda sem tryggir sjálfbæran rekstur.

Þjónustugjöld endurspegla raunkostnað og ríkisframlag er veitt vegna verkefna sem eru undanþegin gjaldtöku.

Menning stöðugra umbóta

Starfinu er stýrt með virku stjórnunarkerfi og stöðugum umbótum þar sem hlutverk og verkferlar eru vel skilgreind.

Öll svið setja fram árlega starfsáætlun sem tekur mið af heildarstefnu. Markmið og mælikvarðar eru skilgreind og niðurstöður metnar og gerðar aðgengilegar.