Sam
ferða

Framtíðarstefna Samgöngustofu 2021 – 2024

Kjarninn í starfsemi Samgöngustofu er öryggi í samgöngum. Íslenskt þjóðfélag er í stöðugri mótun og aðlögun er nauðsynleg til að framþróun verði. Markmiðin ættu alltaf að vera framfarir milli ára og að staða okkar sé hið minnsta jafngóð og þeirra þjóða sem fremstar standa. Þáttur í þeirri vegferð er að stuðla sem best að öryggi fólks á ferðinni, óháð samgöngumáta. Margt hefur áunnist en alltaf má gera betur og okkar að vera samferða á þeirri leið.

Samgöngustofa er stjórnsýslustofnun samgöngumála og tók til starfa 1. júlí 2013. Stofnunin starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og alþjóðaskuldbindingum sem gilda á hverjum tíma. Stofnunin hefur það hlutverk að stuðla að öruggum samgöngum að teknu tilliti til þess að þær séu sjálfbærar, greiðar og hagkvæmar og taka um leið mið af þörfum samfélagsins. Frá upphafi hefur mikið starf verið unnið við að samþætta og styrkja sameinaða stofnun. Til einföldunar hefur Samgöngustofa skilgreint fjögur meginverkefni sem ná jafnt til flugs, siglinga og umferðar á landi:

 • Stjórnsýsla
 • Þjónusta og upplýsingamiðlun
 • Leyfisveitingar og eftirlit
 • Innra starf

Heildarstefna Samgöngustofu fyrir tímabilið 2022 til 2024 er vegvísir til þeirrar framtíðar sem við viljum byggja á komandi árum. Framtíðarsýnin vísar til þess að Samgöngustofa ætlar að vera samferða á þessari leið, bæði ytri hagaðilum og starfsfólki í að gera gott samfélag enn betra og öruggara í okkar helstu samgöngumátum. Stefnan og stefnuáherslur eru settar fram byggt á áðurnefndum fjórum meginverkefnum stofnunarinnar. Þær varða leiðina sem fram undan er og við ætlum okkur að feta. Hlutverk alls starfsfólks er að taka höndum saman um að framtíðarsýnin verði að veruleika. Ég hvet okkur öll til að taka virkan þátt í þeim verkefnum sem fram undan eru og miða að því að að gera samfélagið og vinnustaðinn betri.

Stefnuvefurinn er mikilvægur vettvangur til að hafa stefnuna aðgengilega fyrir okkur sem störfum eftir henni og ekki síður fyrir ytri samstarfsaðila sem tengjast starfi stofnunarinnar. Stefnuvefurinn verður lifandi vefur þar sem reglulega verður skýrt frá þeim verkefnum sem eru í vinnslu og eiga að tryggja framgang við að raungera stefnuna. Fram undan eru spennandi tímar hjá Samgöngustofu, gangi okkur öllum vel við að tryggja öruggar samgöngur til framtíðar á Íslandi.

Jón Gunnar Jónsson
forstjóri Samgöngustofu

Við stuðlum að öruggum samgöngum og tökum tillit til þess að þær séu sjálfbærar, greiðar og hagkvæmar og taka mið af samfélags- og umhverfislegum þáttum.

Samgöngustofa starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og alþjóðaskuldbindingum sem gilda á hverjum tíma.

Fjögur meginverkefni ná jafnt til flugs, siglinga og umferðar á landi: Stjórnsýsla, þjónusta og upplýsingamiðlun, leyfisveitingar og eftirlit og innra starf.

Hlutverk Samgöngustofu

Stjórnsýsla

Megin verkefni
 • Ráðgefandi fyrir ráðherra varðandi setningu laga og reglugerða
 • Lögbundin ákvarðanataka stjórnvalds
 • Framkvæmd laga með mótun verklags og leiðbeininga
 • Vöktun, greining og áherslur varðandi alþjóðastarf

Þjónusta og upplýsingamiðlun

Megin verkefni
 • Fræðsla, forvarnir, samskipti og þjónusta við hagaðila og almenning
 • Innlend og erlend samvinna við hagaðila
 • Gagnasöfnun, upplýsingavinnsla og rannsóknir
 • Skráning og úrvinnsla á atvikum

Leyfisveitingar og eftirlit

Megin verkefni
 • Leyfisveitingar og eftirlit með leyfisskyldri starfsemi
 • Afmarkað eftirlit með annari starfsemi og búnaði
 • Skírteini einstaklinga
 • Veita skilgreindar undanþágur frá lögum og reglum

Innra starf

Megin verkefni
 • Stjórnunarkerfi, ferli og gæðamál
 • Fjármál, áætlanagerð og bókhald
 • Mannauðsmál og menning
 • Upplýsingatækni

Hagaðilar

Fjölmargir og ólíkir en eiga það sameiginlegt að hafa hagsmuni af starfi og ákvörðunum stofnunarinnar

Allir mikilvægir og tengjast Samgöngustofu í gegnum margskonar hlutverk: Samstarfsaðilar, leyfishafar, fulltrúar fagstétta, viðskiptavinir eða almennir borgarar.

Mismunandi kröfur til hagaðila kalla á sérsniðna nálgun með jafnræði að leiðarljósi.

Siðareglum þessum er ætlað að endurspegla þau viðmið sem starfsfólk Samgöngustofu er sammála um að viðhafa í störfum sínum.

Siðareglunum er einnig ætlað að endurspegla gildi stofnunarinnar sem eru jákvæðni, fagmennska, traust og virðing.

Siðareglur þessar eru sáttmáli okkar allra og við gætum þess fyrir okkar leyti að farið sé eftir þeim.

Þá gilda ætíð einnig almennar siðareglur starfsmanna ríkisins sem birtar eru á vef Stjórnarráðsins.

Siðareglur Samgöngustofu

Fagmennska og ábyrgð

Við störfum í þágu almennings af fagmennsku og sinnum störfum okkar af ábyrgð og samkvæmt okkar bestu dómgreind.

Við sýnum fagmennsku og ábyrgð í starfi með því að leita upplýsinga, fylgja lögum, reglum, viðurkenndum starfsháttum, siðareglum og öðrum viðmiðum sem eiga við um störf okkar hverju sinni.

Heilindi og traust

Við gætum þess að fjalla um mál viðskiptavina af nærgætni og trúnaði.

Við gætum þess að hagur viðskiptavina okkar, samstarfsfólks og annarra hagsmunaaðila sé tryggður.

Við gætum trúnaðar og þagmælsku um atriði sem við fáum vitneskju um í starfi samkvæmt ákvæðum laga, fyrirmælum stjórnenda eða eðli máls. Það á við hvort sem um er að ræða atriði sem varða aðila sem Samgöngustofa hefur samskipti við eða hefur eftirlit með, stofnunina sjálfa eða starfsfólk hennar.

Háttsemi og virðing

Við rýrum ekki trúverðugleika Samgöngustofu með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi.

Við forðumst að viðhafa nokkuð í starfi eða utan þess sem er okkur til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á starf okkar eða vinnustaðinn.

Við komum fram við viðskiptavini og hvert annað af kurteisi og sanngirni.

Við sýnum umburðarlyndi og tökum tillit til ólíkra sjónarmiða.

Við ávinnum okkur virðingu með athöfnum okkar innan Samgöngustofu sem utan.

Við gagnrýnum með uppbyggilegum hætti og beinum ábendingum okkar til þeirra er málið varðar. Við erum hvetjandi við samstarfsfólk okkar og leggjum okkur fram við að bjóða fram aðstoð.

Við erum sammála um að hvers konar vanvirðing, einelti, áreitni, ofbeldi og önnur ótilhlýðileg háttsemi er aldrei liðin.

Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar

Við gætum þess að vina-, hagsmuna- og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf okkar hjá Samgöngustofu.

Við nýtum ekki stöðu okkar eða upplýsingar, fengnar í starfi, í eigin þágu eða annarra.

Við tökum ekki að okkur annað starf sem er ósamrýmanlegt starfi okkar hjá Samgöngustofu. Við tilkynnum til yfirmanns fyrirætlanir um störf utan Samgöngustofu.

Við beitum dómgreind okkar til þess að átta okkur á og koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra.

Við þiggjum ekki persónulegar verðmætar gjafir vegna starfs okkar.

Við forðumst að fjalla um eða afgreiða mál ef við höfum veruleg tengsl við viðskiptavin eða fyrirtæki eða fyrir hendi eru aðrar aðstæður sem eru til þess eru fallnar að draga megi óhlutdrægni okkar í efa.

Framtíðarsýn og menning

Samgöngustofa stuðlar að öruggum samgöngum fyrir öflugt íslenskt samfélag. Samgönguöryggi á Íslandi er framúrskarandi og eins og best gerist hjá öðrum þjóðum.

Starf Samgöngustofu einkennist af fagmennsku vel þjálfaðs og hæfu starfsfólki með sérhæfða kunnáttu á hverju sviði til að tryggja öruggar samgöngur. Við tökum mið af þörfum hagaðila við skipulagningu á starfi. Samvinna og þjónusta við þá er áreiðanleg og lipur. Starfið tryggir framþróun sem tekur mið af síbreytilegum þörfum samfélagsins og umhverfislegum þáttum.

Gildin okkar

 • Jákvæðni
 • Fagmennska
 • Traust
 • Virðing

Skilvirk stjórnsýsla

 • Ferli við vinnu áhrifamata, undirbúning reglugerða og tillögur til lagabreytinga er vel skilgreint og einfaldar framkvæmd regluverks með öryggi að leiðarljósi
 • Ferli við innleiðingu á nýjum eða breyttum kröfum er vel skilgreint og starfsfólk þjálfað til að ná sem bestum árangri
 • Verklag er þróað og einfaldað með skilvirkum hætti og endurspeglar kröfur á hverjum tíma
 • Til er heildstæð áætlun um hvernig starfsfólk Samgöngustofu er þjálfað til að sinna skilvirkri og faglegri stjórnsýslu
 • Samgöngustofa tryggir hagaðilum og almenningi réttláta og sanngjarna málsmeðferð í samræmi við vandaða stjórnsýslu. Stofnunin hefur frumkvæði að samstarfi við innlendar systurstofnanir til að tryggja skilvirka stjórnsýslu
 • Stofnunin tekur virkan þátt í umræðu og mótun alþjóðlegs regluverks og leitað er til Íslands eftir þátttöku í alþjólegu samstarfi.

Markviss þjónusta og upplýsingamiðlun

 • Ávallt er tekið tillit til umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar við ákvarðanatöku og í daglegu starfi.
 • Fræðsla og forvarnir eru markhópamiðaðar og ávallt er horft til notkunar þeirra miðla sem taldir eru skila bestum árangri í starfinu á hverjum tíma.
 • Áætlanir um fræðslu og forvarnir eru reglulega endurmetnar út frá áhættugreiningum.
 • Hagaðilar eru vel skilgreindir eftir málaflokkum og samskipti við þá eru skipulögð og tímasett til að tryggja öflugt upplýsingaflæði.
 • Heildarsýn og stýring er á gagnasöfnum, aðgangur hagaðila að gögnum er að mestu sjálfvirkur og notendavænn.
 • Upplifun hagaðila af samskiptum og þjónustu er könnuð reglulega og niðurstöður nýttar til að bæta starfið.
 • Virkt ábendingakerfi fyrir hagaðila og unnið úr ábendingum til að bæta starfsemi og fylgja eftir gagnvart málum eftirlitsskyldra aðila.
 • Ávallt er litið á sjálfsafgreiðslu með rafrænar lausnir sem fyrsta raunhæfan valkost í samskiptum.

Faglegar leyfisveitingar og áhættumiðað eftirlit

 • Skýrt verklag fyrir öll starfsleyfi sem Samgöngustofa veitir og upplýsingar til þeirra sem sækja um leyfi eru skýrar og aðgengilegar
 • Hlutverk Samgöngustofu sem ábyrgðaraðili fyrir áætlanir Íslands í samgöngum er skýrt og sýnilegt í allri starfsemi stofnunarinnar.
 • Eftirlitsstarfsemi Samgöngustofu byggir á áætlunum, vel skilgreindu stjórnunarkerfi, atvikaskráningu og áhættugreiningu.
 • Stjórnun eftirlits fyrir hvern samgönguþátt tekur mið af tilheyrandi öryggisáætlunum.
 • Traust ríkir á milli leyfishafa og Samgöngustofu og þeir sem best standa sig í að uppfylla gildandi kröfur fá að njóta þess og öðrum er sýnt meira aðhald í umbótaskyni.

Framsækið og öflugt innra starf

 • Rekstur stofnunarinnar einkennist af vandaðri áætlanagerð og reglulegri eftirfylgni stjórnenda sem tryggir sjálfbæran rekstur sem er innan heimilda.
 • Þjónustugjöld endurspegla raunkostnað og ríkisframlag er veitt vegna verkefna sem eru undanþegin gjöldum.
 • Starfinu er stýrt með virku stjórnunarkerfi og stöðugum umbótum, ferlar eru vel skilgreindir og byggðir upp til að mæta þörfum hlutaðeigandi aðila.
 • Stöðugt er unnið að samræmingu ferla milli sviða og deilda, með gæða- og ferlahugsun að leiðarljósi.
 • Rétt mönnun er tryggð, hæfni og hæfi til staðar þannig að verkefni eru leyst tímanlega.
 • Samgöngustofa er eftirsóttur vinnustaður, þekktur fyrir framsækið starfsumhverfi og góð samskipti.
 • Öll svið setja fram árlega stefnuáætlun sem tekur mið af heildarstefnu.
 • Markmið og mælikvarðar eru settir fram á hverjum tíma, niðurstöður metnar og birtar reglulega.
 • Heildstæð áætlun er til um stafræna vegferð og tekið er mið af nýjustu tækni til að tryggja rafrænar lausnir við hönnun verkferla og þjónustu.

Stefnuáherslur

Skilvirk stjórnsýsla
Greining og flokkun dóma ECJ vegna EB rg. 261/2004
Greining og flokkun ákvarðana SGS vegna EB rg. 261/2004
Skýra og uppfæra áhrifamatsform
Rafræn skipsskírteini og útfærsla á Mínu svæði fyrir skip
Stafrænt ökunám - B réttindi
Skipulagning uppgreiðslu á tækniskuld
Markviss þjónusta og upplýsingamiðlun
Reglubundin endurskoðun á upplýsingum á vef
Skútan, nýtt kerfi fyrir skip og lögskráningar sjómanna
Stafræn þróun - rafræn CoC vottorð og aukin sjálfvirkni við forskráningar
Stafræn þróun - vefþjónusta fyrir eigendaskipti umboða og tryggingafélaga
Stafræn þróun - vefþjónustur fyrir nýskráningar
Upplýsingamiðlun gagnvart flugskólum og grasrót í flugi
Regluleg framkvæmd viðhorfskannana
Planið, upplýsingamiðlun - þróun og innleiðing
Faglegar leyfisveitingar og áhættumiðað eftirlit
Áhættumiðað eftirlit í siglingum
Endurskoðun verkferla vegna eftirlits með viðurkenndum réttingarverkstæðum
ADR skráningar og skoðanir - nýr ferill og handbók
Heildarendurskoðun ökuprófa til B-réttinda
Greining á kröfum og samræmi þjóðarreglna og alþjóðareglna í flugi
Frammistöðumiðað eftirlit í flugi
Innleiðing á Centrik úttektarkerfi
Kortlagning verkefna á sviði umhverfis og sjálfbærni
Framsækið og öflugt innra starf
Rekstraruppgjör deilda
Fjölgun rafrænna eyðublaða
Innleiðing á CCQ fyrir innra gæðastarf
Skipulag umbóta í tengslum við viðhorfskannanir starfsfólks
Þjálfun og uppbygging sem styðja við starfsemi

Verkefni í vinnslu